En ég get ekki átt rafbíl því ég á ekki stæði
Á þessum vettvangi hefur áður verið fjallað um nýlegar breytingar á lögum um fjöleignarhús. Tilgangur breytinganna er að gera öllum sem vilja kleift að hlaða rafbíla heima hjá sér. Fyrir þá sem eiga bílastæði liggur í augum uppi að koma upp eigin hleðsluaðstöðu við eigið stæði. Fyrir þá sem ekki eiga sitt eigið stæði kann að virðast sem rafbíll sé utan seilingar, ef svo má að orði komast. Það er þó fjarri sanni.
Ef íbúi í fjölbýlishúsi á ekki bílastæði og vill hlaða bíl sem gengur fyrir rafmagni þarf hann einungis að óska eftir því. Þegar slíkri ósk hefur verið komið á framfæri er húsfélaginu lagalega skylt að bregðast við og koma upp hleðsluaðstöðu.s Það sem meira er, hægt er að fara fram á að allt að helmingur bílastæða verði tekinn undir rafbílahleðslu án þess að annað þurfi til en einfalda beiðni.
Bílastæði sem tekin eru undir rafbílahleðslu skulu síðan einungis vera nýtt í þeim tilgangi nema annað fyrirkomulag sé sérstaklega samþykkt á húsfundi.
Það er því ljóst að lögin ganga virkilega langt í þeim tilgangi að tryggja öllum sem vilja aðgang að hleðsluaðstöðu.