Áfram
Nú eru góð ráð ekki dýr

Nú eru góð ráð ekki dýr

Mörg húsfélög velta því fyrir sér þessa dagana hvernig best sé að snúa sér í uppbyggingu hleðsluinnviða. Nýlegar breytingar á lögu um fjöleignahús gera það óhjákvæmilegt að ráðast í slíka fjárfestingu fyrr heldur en síðar. Algengt er að húsfélög kalli eftir tilboðum frá ólíkum fyrirtækjum þar sem hverju fyrirtæki er í sjálfsvald sett að hanna lausn. Þessi aðferð mun, þegar fram í sækir reynast allmörgum húsfélögum dýr.

Lengi býr að fyrstu gerð sagði einhver. Þau orð eiga vel við hér. Engum myndi detta í hug að kalla til hóp byggingaverktaka, biðja þá um að gera tilboð í að reisa hús eftir eigin höfði og velja svo ódýrastu tillöguna.

Vel skilgreind framkvæmd, tímasett og hugsuð til enda kemur í veg fyrir tvíverknað og tryggir að ráðist sé þau skref sem þarf, þegar þarf. Það er óþarfi að koma sér upp kerfi sem ekki verða not fyrir næstu tíu árin en þó þarf að tryggja að hver þáttur sem ráðist er í uppfylli þau skilyrði sem felast í endanlegu markmiði.

Fyrirtæki vilja að sjálfsögðu fá sem flest verkefni. Þegar bjóða á í verk án þess að mótuð áætlun og hönnun liggi fyrir liggur beinast við að ná tilboðsfjárhæðinni niður og auka þannig líkur á að fá verkið. Afleiðingin getur verið kerfi sem dugar í dag, en þegar bílum fjölgar, batterí stækka, hleðslustöðvar verða öflugari, hvað þá? Byggingaverktakarnir kappsömu í dæminu hér að ofan gætu náð tilboðsfjárhæðinni niður með því að hafa húsið úr timbri, sleppa gluggum, nota skilrúm í stað inniveggja eða eitthvað álíka gáfulegt.

Ráðgjöf og hönnun er besta leiðin til að tryggja vel útfærða, gegnsæja framkvæmd. Ákvarðanir sem teknar eru styðjast með því við utanaðkomandi ráðgjöf og ljá framkvæmdum þannig trúverðugleika. Þannig er líklegra að eining náist um þau skref sem stigin eru. Daginn sem hleðslan klikkar eru nefnilega góð ráð dýr!

Fyrri grein IP Varnarflokkur
Næsta grein Að bera saman Hleðslustöðvar